Tryggingar

Eimskip á Íslandi selur farmtryggingar í umboði Sjóvá. Um er að ræða tvenns konar tryggingar, stakar tryggingar og opnar tryggingar.
Stakar tryggingar eru keyptar fyrir eina sendingu til dæmis við flutning búslóða og bifreiða.
Opnar tryggingar - Þá er gengið frá samningi við ráðgjafa Eimskips um að allur farmur sem fluttur er með Eimskip verði tryggður til lengri eða skemmri tíma. Þá þarf ekki að gera ráðstafanir til að tryggja farm í hvert skipti heldur mun Eimskip sjá um að tryggingafélagið fái upplýsingar um allar sendingar viðskiptavinar.
Skilmálar og iðgjöld þessarar tryggingar eru samningsatriði milli viðskiptavinarins og Sjóvá.

HVERSU HÁ ER TRYGGINGIN?

Ef um verslunarvöru er að ræða ákvarðast tryggingarfjárhæðin venjulega af kostnaðarverði vörunnar þegar hún er komin í höfn að viðbættum 10%. Ef um persónulegar eigur er að ræða verður eigandi að áætla verðgildi þeirra. Mikilvægt er að áætla verðgildi eignanna eins nákvæmlega og unnt er því verði tjón miðast bætur við tilgreint verðmæti. 

TAKMÖRKUN ÁBYRGÐAR FARMFLYTJENDA

Ábyrgð farmflytjenda er háð takmörkunum og er undir vissum kringumstæðum ekki fyrir hendi. Á það jafnt við um farmflytjendur á sjó, landi og í lofti. Farmflytjendur á sjó eru til dæmis ekki ábyrgir fyrir tjóni af völdum óveðurs eða brotsjóa. Sé farmur hins vegar vátryggður sér viðkomandi tryggingafélag um að bæta tjónið í samræmi við þá vátryggingavernd sem samið var um.
Í sjóflutningum eru takmarkanir á ábyrgð farmflytjenda skilgreindar í siglingalögum, auk skilmála sem fram koma á farmskjölum. Annars vegar er um að ræða aðstæður þar sem ábyrgð er undanskilin og hins vegar takmarkanir á ábyrgð þar sem tjón er bótaskylt.
Hægt er að lesa meira í flutningsskilmálum sem viðskiptamönnum er bent á að kynna sér vandlega.
Frekari upplýsingar veita þjónustufulltrúar í síma 525-7000 eða á netfanginu service@eimskip.is.