Eimskip fagnar 110 ára afmæli

17. janúar 2024 | Fréttir
Eimskip fagnar 110 ára afmæli

Eimskipafélag Íslands fagnar 110 ára afmæli sínu í dag, 17. janúar. Frá stofnun Eimskips árið 1914 hefur félagið tekið virkan þátt í að móta landslag flutninga til og frá landinu, tengt saman heimshluta og haft að leiðarljósi áreiðanlega flutninga og framúrskarandi þjónustu til viðskiptavina. Í dag er félagið leiðandi flutningafyrirtæki í Norður-Atlantshafi sem starfar í 20 löndum, en starfsfólk telur um 1.700 manns af 40 mismunandi þjóðernum.

„Þakklæti er manni efst í huga á þessum tímamótum" segir Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips. „Saga okkar og árangur síðustu 110 árin byggir að stórum hluta á samheldni starfsfólks og getu þeirra og útsjónarsemi í að bregðast við síbreytilegum aðstæðum á landi og sjó og þróast í takti við þjóðfélagsbreytingar og mæta þörfum viðskiptavina hverju sinni. Þá hefur gott samstarf við okkar mikilvægu viðskiptavini og þau samfélög sem við störfum í verið ómetanlegt. Við erum stolt af sögunni okkar og byggjum á henni á sama tíma og við leggjum mikla áherslu á að þróa félagið í takti við kröfur nútímans.“

Til að fagna þessum merka áfanga hefur Eimskip ákveðið að setja upp myndlistarsýninguna Hafið hugann ber í höfuðstöðvum sínum að Sundabakka í Reykjavík. Á sýningunni verður til sýnis ríkulegt úrval listaverka sem félagið hefur eignast gegnum tíðina, en safneign félagsins telur í heildina um 500 listaverk sem eru samofin sögu Eimskips á þessum 110 árum. Sýningarstjórn verður í höndum Katrínar Eyjólfsdóttur en sýningin fer fram laugardaginn 20. janúar kl. 14-17 og er öllum opin.

Af þessu tilefni ætlar Eimskip að stofna sérstakan styrktarsjóð tileinkaðan myndlist. Myndlistarstyrkur Eimskips verður framvegis veittur í kringum afmæli félagsins, en markmiðið er að styrkja upprennandi íslenska listamenn í listsköpun sinni. Sérstök úthlutunarnefnd mun fara yfir umsóknir hverju sinni og úthluta þremur milljónum króna, en fyrirkomulagið verður kynnt frekar þegar opnað verður fyrir umsóknir í fyrsta sinn á vormánuðum.

Í dag er auk þess haldin árleg afhending gullmerkis Eimskips. Gullmerkið var fyrst afhent á árshátíð Eimskips þann 18. janúar 1964 í tengslum við 50 ára afmæli félagsins en síðan þá hefur starfsfólk sem starfað hefur hjá Eimskip í 25 ár verið heiðrað á þennan hátt, ýmist á árshátíð eða á afmælisdegi félagsins. Á þeim 60 árum frá því að fyrsta gullmerkið var afhent hafa 527 starfsmenn hlotið merkið og í dag bætast sjö starfsmenn í hópinn, fjórir á Íslandi og þrír erlendis.

„Hjá Eimskip starfar í dag breiður hópur starfsfólks í fjölbreyttum störfum og er hver og einn starfsmaður mikilvægur hlekkur í starfsemi félagins. Afhending gullmerkisins er skemmtileg hefð og við erum afar stolt af því hve margir ná háum starfsaldri hjá okkur.” segir Vilhelm að lokum.