Fara á efnissvæði

20 ár eru nú frá upphafi samstarfs Eimskips og Kiwanis um að gefa nemendum í fyrsta bekk á Íslandi reiðhjólahjálm. Á þessum árum hafa um 85 þúsund börn fengið reiðhjólahjálm að gjöf og mörg ungmenni muna eftir tilfinningunni að fá hjálminn í hendurnar. Markmið verkefnisins hefur frá upphafi verið að auka umferðaröryggi en öryggismálin eru samofin starfsemi Eimskips enda starfsemin fjölbreytt.

„Við erum afar stolt af því að hafa komið góðu til leiðar í 20 ár með þessu mikilvæga verkefni í góðu samstarfi við Kiwanis hreyfinguna á Íslandi. Saman viljum við stuðla að öryggi ungra barna sem eru að stíga sín fyrstu skref í umferðinni.“ segir Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips.

Afhending hjálmanna er í fullum gangi en alls fá um 4.500 börn hjálm að gjöf í ár ásamt buffi og endurskinsmerki. Mikilvægt er að hjálmurinn sé rétt stilltur á höfði barnsins og eru foreldrar hvattir til að kynna sér leiðbeiningar á vefsíðu félagsins, en þar má lesa allt um hvernig hjálmarnir eru rétt stilltir.

„Eimskip er með fjöldann allan af skipum og tækjum, bæði stórum sem smáum, vöruhús og frystigeymslur í sínum rekstri. Á hverjum degi aka um 100 flutningabílar félagins um vegi Íslands til að koma verðmætum varningi á réttan stað á réttum tíma. Í starfsemi eins og okkar eru öryggis- og forvarnarmál gríðarlega mikilvæg. Það skiptir öllu að öryggisbúnaður sé réttur og að starfsfólk viti hvernig skal bera sig að. Við leggjum því mikla áherslu á fræðslu um öryggismál og viljum alltaf gera enn betur í þeim málum því fræðsla er ein besta forvörnin. Því viljum við hvetja foreldra sérstaklega til að kíkja á vefsíðuna okkar og kynna sér hvernig best er að stilla hjálminn svo börnin hjóli örugg inn í sumarið.“ segir Vilhelm að lokum.