Fara á efnissvæði

Eimskip mun á fyrsta ársfjórðungi næsta árs innleiða mikilvægar breytingar á gámasiglingakerfi félagsins sem hafa það að markmiði að styrkja enn frekar þjónustu við viðskiptavini með áreiðanlegri og umhverfisvænni siglingum og minnka kolefnisspor. Breytingar fela það í sér að einfalda siglingakerfið enn frekar, fækka viðkomum í höfnum og stytta siglingaleiðir og þar með minnka kolefnislosun og lækka kostnað. Sú breyting sem nú er kynnt er lokafasi í verkefni sem hófst fyrr á árinu með siglingakerfisbreytingum sem innleiddar voru á vormánuðum.  

Helstu atriði

  • Markmið er að heildarbreytingar sem gerðar hafa verið á siglingakerfinu á árinu, að meðtalinni þessari sem fyrirhugað er að hrinda í framkvæmd á fyrsta fjórðungi næsta árs, muni m.a. hafa eftirfarandi áhrif á ársgrundvelli:
    • Sigldum mílum fækki um rúmlega 40.000 eða ríflega 5%
    • Samdrátt í olíunotkun um tæp 5.000 tonn og CO2 losun um 15.000 tonn eða um 7% og sé það borið saman við árið 2022 er samdráttur í olíunotkun um tæp 11.000 tonn eða um 14%
    • Fækkun um eitt gámaskip í þjónustu sem nú þegar er komið til framkvæmda og eru þau nú 11 talsins
    • Með þessum breytingum minnkar fjöldi losunarheimilda (ETS eininga) sem Eimskip þarf að kaupa frá og með næsta ári sem stuðlar að minni fjárhagslegum kostnaði fyrir samfélagið
  • Aukinn áreiðanleiki og bætt þjónusta við viðskiptavini felur m.a. í sér:
    • Aukin þjónusta með styttri flutningstíma frá Bretlandi til Íslands
    • Innflutningur frá Danmörku og Svíþjóð kemur til Reykjavíkur á mánudegi, eða degi fyrr en í núverandi kerfi
    • Vikulegar strandsiglingar á Íslandi sem tryggja betri og umhverfisvænni þjónustu við landsbyggðina
    • Einföldun siglinga á Norður Ameríku leiðinni sem styður við flutninga á ferskum fiski
    • Aukin þjónusta í flutningum frá norður og vestur Noregi til Færeyja og Norður Ameríku
    • Bein tenging frá Færeyjum til Þýskalands
  • Aukin áhersla á skilvirkni og afkastagetu hafna til að m.a. styðja við áreiðanleika og hagkvæmni
    • Nýr hafnarþjónustu aðili í Rotterdam
    • Ný og stærri höfn í Teesport í Bretlandi
    • Viðkomutímum breytt og afkastageta aukin í ákveðnum höfnum
    • Fjárfesting í nýjum hafnarkrana í Sundahöfn og fjölgun um einn krana á Reyðarfirði
  • Breytingar á samsiglingum með Royal Arctic Line (RAL) þar sem viðkoma í Þýskalandi verður nú hluti af þeirri áætlun
  • Eimskip mun áfram leita leiða til að hagræða og draga úr umhverfisáhrifum siglingakerfisins bæði til skemmri og lengri tíma

Breytingarnar eru hluti af vegferð sem hófst fyrr á þessu ári þar með breytingum á strandsiglingum við Ísland og samþættingu frystiskipakerfis í Noregi við gámasiglingakerfið í gegnum Færeyjar ásamt nýju skipi, Bakkafoss, sem kom í þjónustu á Norður-Ameríku leiðinni.

Framundan eru því breytingar á þremur siglingaleiðum félagsins, þ.e. rauðu, gulu og bláu. Rauða leiðin verður áfram í samsiglingum með RAL en með þeirri breytingu að leiðin mun hafa viðkomu í Bremerhaven í Þýskalandi og á móti fækkar viðkomum í öðrum höfnum. Bláa leiðin mun ekki lengur sigla til Bremerhaven en mun bæta við viðkomu á norðurleiðinni í Teesport í Bretlandi fyrir innflutning til Íslands. Gula leiðin breytist töluvert en mun áfram gegna mikilvægu hlutverki fyrir Vestmannaeyjar og fær aukið vægi í þjónustu við Færeyjar.

Breytingarnar styðja við umhverfismarkmið félagsins og bjóða viðskiptavinum áreiðanlega og umhverfisvænni flutninga ásamt því að mæta auknum alþjóðlegum kröfum. Þá eru þær einnig hluti af mótvægisaðgerðum Eimskips til að draga úr þörf til kaupa á losunarheimildum í tengslum við vænta innleiðingu á European Emission Trading System (ETS) í byrjun árs 2024.

Frekari upplýsingar um breytingarnar er að finna á heimasíðu félagsins og allar nánari upplýsingar veita viðskiptastjórar félagsins.

Viðhengi