Sjálfbærnistefna Eimskips

Í yfir 100 ár hefur Eimskip boðið upp á áreiðanlega flutningaþjónustu og framtíðarsýn félagsins er framúrskarandi flutningslausnir og þjónusta. Eimskip leggur áherslu á sameiginlega verðmætasköpun fyrir hluthafa, viðskiptavini, starfsmenn, samfélag og aðra haghafa.

Stefna Eimskips í sjálfbærni var mótuð árið 2016 og birt árið 2017. Stefnan byggir á leiðbeiningum frá Nasdaq ESG Reporting Guide sem gefnar voru fyrst út í mars 2017. Sjálfbærni stefna félagsins skiptist í þrjú áherslusvið; umhverfi, félagslega þætti og stjórnarhætti.

Loftslagsmál

Eimskip undirritaði í nóvember 2015 yfirlýsingu um loftslagsmál sem felur í sér að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, lágmarka neikvæð umhverfisáhrif með markvissum aðgerðum og mæla árangurinn og gefa reglulega út upplýsingar um stöðuna. Eimskip setti sér þá markmið um að minnka kolefnisspor sitt um 40% á flutta einingu til ársins 2030.

Global Compact

Eimskip er þátttakandi í UN Global Compact sem er hvati Sameinuðu þjóðanna til samfélagsábyrgðar fyrirtækja og stofnana að því er varðar mannréttindi, vinnumarkað, umhverfi og aðgerðir gegn hvers kyns spillingu. Félagið hefur með þátttöku sinni skuldbundið sig til að haga sínum rekstri þannig að hin tíu grundvallarmarkmið UN Global Compact verði samtvinnuð stefnu félagsins, menningu og daglegri starfsemi. Félagið hefur einnig skuldbundið sig til að tala fyrir UN Global Compact og grundvallarmarkmiðunum tíu þar sem því verður við komið og segja árlega frá því hvernig framkvæmdinni miðar. 

Nánar um UN Global Compact

Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð

Eimskip er aðili að Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð, sem hefur það markmið að auka þekkingu á samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja, og efla getu fyrirtækja til að tileinka sér samfélagslega ábyrga starfshætti.  

Nánar um Festu og samfélagsábyrgð

ESG viðmið

Eimskip vinnur eftir leiðbeiningum frá Nasdaq. ESG inniheldur 30 mælikvarða sem auðvelda birtingu upplýsinga á skýran og aðgengilegan hátt er varðar umhverfi (e. Environmental), félagslegir þættir (e. Social) og stjórnarhættir (e. Governance).