Helstu atriði í afkomu fjórða ársfjórðungs
Rekstur félagsins litaðist af krefjandi ytri aðstæðum.
Tekjur námu 201,4 milljónum evra og lækkuðu um 25,8 milljónir evra eða 11,4% samanborið við fjórða ársfjórðung 2024.
- Magn í siglingakerfinu lækkaði um 6,1% á fjórðungnum. Töluverð aukning varð á innflutningi til Íslands á milli ára sem var keyrð áfram af mikilli aukningu í innflutningi á bifreiðum, en á móti var lækkun í útflutningi frá Íslandi vegna framleiðsluminnkunar hjá Norðuráli og áframhaldandi stöðvunar PCC. Magn í Trans-Atlantic var gott þó það hafi minnkað frá sama tímabili 2024 þegar magnið var óvenju sterkt. Þá hafði skert flutningsgeta í Noregi áhrif á magn þar sem eitt skip af fjórum var úr rekstri allan fjórðunginn vegna bilana.
- Veruleg lækkun á alþjóðlegum flutningsverðum hafði áhrif á alþjóðlegu flutningsmiðlunina á fjórðungnum, sem þó skilaði ásættanlegri afkomu.
- Önnur flutningstengd starfsemi skilaði ágætum árangri með áframhaldandi batnandi afkomu í innanlandsflutningum, en sérstök áhersla var lögð á þann hluta starfseminnar allt árið.
Rekstrarkostnaður nam 188,6 milljónum evra og lækkaði um 11,4 milljónir evra eða 5,7% frá fyrra ári sem má að mestu leyti rekja til lækkana á alþjóðlegum flutningsverðum og minni olíunotkunar. Launakostnaður jókst um 1,9 milljónir evra eða 4,7% sem er minni hækkun milli ára en undanfarna ársfjórðunga. Hækkunina má að mestu leyti rekja til kjarasamningsbundinna launahækkana og gengisáhrifa.
EBITDA fjórðungsins nam 12,7 milljónum evra samanborið við 27,1 milljón evra á sama tímabili 2024, sem er lækkun um 53%. Miklar launahækkanir undanfarinna ára, þróun á kostnaði helstu birgja og lækkun á einingaverðum í siglingakerfinu ráða mestu um lækkun afkomu en ekki hefur tekist að velta auknum kostnaði út í verðlag.
Á haustmánuðum var ráðist töluverðar hagræðingaraðgerðir sem fólu meðal annars í sér fækkun í skipaflota, endurskipulagningu siglingakerfisins, fækkun stöðugilda og aðhaldi í fjárfestingum.
Lausafjárstaða var sterk í lok tímabilsins þrátt fyrir lægra sjóðstreymi miðað við sama tímabil í fyrra.
Helstu atriði í afkomu ársins 2025
Árið 2025 var krefjandi í rekstri félagsins og þrátt fyrir nokkuð stöðugt magn, bæði í siglingakerfinu og alþjóðlegu flutningsmiðluninni, ásamt fínni afkomu í annarri flutningstengdri starfsemi var niðurstaða ársins vonbrigði.
Tekjur á árinu 2025 námu 807.5 milljónum evra og lækkuðu þær um 39,6 milljónir evra eða 4,7%. Heildarkostnaður nam 737,8 milljónum evra og lækkaði um 11,5 milljónir evra eða 1,5%. Á árinu hækkaði launakostnaður um 11,8 milljónir evra eða 7,8%, en launahækkanir voru að mestu leyti drifnar áfram að kjarasamningsbundnum hækkunum og gengisáhrifum. EBITDA nam 69,7 milljónum evra samanborið við 97,8 milljónir evra árið 2024. EBIT var 9,2 milljónir evra miðað við 34,9 milljónir evra árið 2024. Góð afkoma var af hlutdeildarfélögum og nam hlutdeild Eimskips 12,5 milljónum evra á árinu. Hagnaður eftir skatta nam 9,3 milljónum evra, samanborið við 30 milljónir evra árið 2024.
Skuldsetningarhlutfall var 3,17 í lok árs samanborið við 2,28 í lok árs 2024, en langtíma viðmið félagsins er að hlutfallið sé á bilinu 2-3. Eiginfjárhlutfall félagsins var 46,7% en langtímamarkmið félagsins er að eiginfjárhlutfallið sé í kringum 40%.
Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri
„Fjórði ársfjórðungur 2025 var krefjandi líkt og undangengnir fjórðungar en þrátt fyrir snúið ytra umhverfi hélt Eimskip áfram að hrinda í framkvæmd markvissum hagræðingaraðgerðum til að bæta afkomu félagsins. EBITDA á fjórðungnum nam 12,7 milljónum evra og lækkaði um 14,4 milljónir evra frá sama tíma á fyrra ári.
Miklar launahækkanir undanfarinna ára, þróun á kostnaði helstu birgja og lækkun á einingaverðum í siglingakerfinu ráða mestu um lækkun afkomu, en ekki hefur tekist að koma auknum kostnaði út í verðlag.
Útflutningur frá Íslandi dróst töluvert saman þar sem framleiðsluskerðing hjá Norðuráli og áframhaldandi lokun PCC á Bakka höfðu veruleg áhrif á flutningsmagn í siglingakerfinu og hafnarstarfsemi félagsins. Einnig hafði plássleysi í frystigeymslum Evrópu áhrif á útflutning frá Íslandi en á móti kom veruleg aukning á innflutningi bifreiða vegna breytingar á vörugjöldum um síðustu áramót. Þessar breytingar höfðu svipuð áhrif og sáust um áramótin 2023 þegar breytingar á gjaldheimtu rafmagnsbifreiða leiddu til mikillar eftirspurnar og tímabundnu auknu magni inn í kerfið.
Í Færeyjum dróst útflutningur saman, bæði á frystum fiski og uppsjávarafurðum en truflanir í siglingakerfinu höfðu áhrif á afköst. Þá hafði skert flutningsgeta í Noregi áhrif á magn þar sem eitt skip af fjórum var úr rekstri vegna bilana allan fjórðunginn.
Alþjóðlega flutningsmiðlunin skilaði ágætri niðurstöðu, studd af framlagi þvert á starfsstöðvar félagsins þrátt fyrir að alþjóðleg flutningsverð hafi lækkað töluvert frá fyrra ári. Eimskip býr yfir sveigjanleika til að geta brugðist hratt við verðsveiflum og breytingum í aðfangakeðjunni sem nýttist vel á fjórðungnum þegar flæði útflutnings frá Asíu til Bandaríkjanna færðist til annarra markaða.
Breytingar voru gerðar á strandsiglingum félagsins á fjórða ársfjórðungi þar sem viðkomustöðum var fækkað. Hluti flutninga sem áður fór með sérstöku strandskipi færðist yfir í innanlandsflutninga og hefur sú yfirfærsla gengið farsællega. Viðskiptavinir hafa tekið vel í nýjar þjónustuleiðir og þjónustustig haldist sterkt. Á undanförnum mánuðum höfum við haldið ótrauð áfram að hrinda í framkvæmd mótvægisaðgerðum sem miða að því að styrkja rekstur félagsins og bæta afkomu á komandi fjórðungum. Þær fela meðal annars í sér fækkun í skipaflota, breytingar á siglingakerfinu, hagræðingu í stöðugildum og aðhald í fjárfestingum. Áætlað er að þær aðgerðir sem þegar hafa komið til framkvæmda skili árlegum sparnaði upp á 13,5 milljónir evra, auk þess sem fjöldi verkefna er í vinnslu sem munu styðja við reksturinn til lengri tíma.
Á haustmánuðum vann félagið að nýrri stefnu, Eimskip 3.0. Það var ekki aðeins mikilvægt heldur einnig sérstaklega ánægjulegt að sjá hversu stór hluti starfsfólks um allan heim tók þátt í ferlinu á margvíslegan hátt. Kynningarfundir, kannanir, rýnihópar og vinnustofur tryggðu að sjónarmið, reynsla og hugmyndir fólksins okkar væru órjúfanlegur hluti af niðurstöðunni. Í meira en 112 ár hefur Eimskip verið burðarás í verðmætasköpun samfélaganna sem við störfum í og lagt mikinn metnað í að þjónusta viðskiptavini. Með Eimskip 3.0 stígum við næsta skref og horfum fram á við með skýra framtíðarsýn, að tengja samfélög og skapa hagsæld fyrir fólk og fyrirtæki. Á sama tíma er hlutverk okkar afdráttarlaust, að veita áreiðanlegar heildarlausnir í flutningum á sjálfbæran hátt með árangur viðskiptavina að leiðarljósi. Okkar lausnir – þinn árangur.
Þrátt fyrir áskoranir fjórða ársfjórðungs sýna niðurstöður að félagið býr yfir sterkum innviðum, öflugu starfsfólki og góðri fjárhagsstöðu sem mun gera okkur kleift að nýta vel þau tækifæri sem árið 2026 mun bjóða upp á.“
Kynningarfundur 29. janúar 2026
Eimskip býður fjárfestum og markaðsaðilum til fundar þar sem Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri og Rósa Guðmundsdóttir, fjármálastjóri munu kynna uppgjörið. Fundurinn verður haldinn fimmtudaginn 29. janúar nk. kl. 8:30 í höfuðstöðvum félagsins Sundabakka 2, 2. hæð. Fundurinn verður einnig sendur út í gegnum fjárfestasíðu félagsins www.eimskip.com/investors. Þar verður útbúinn sérstakur hlekkur áður en fundur hefst. Fjárfestum er velkomið að senda spurningar fyrir fundinn á netfangið investors@eimskip.com.
Frekari upplýsingar
Rósa Guðmundsdóttir, fjármálastjóri, sími: 844 4776, netfang: investors@eimskip.com
Guðbjörg Birna Björnsdóttir, forstöðumaður fjárstýringar og fjárfestatengsla, sími 844 4752, netfang: investors@eimskip.com
Til athugunar fyrir fjárfesta
Eimskip vekur athygli á því að staðhæfingar sem finna má í þessari afkomutilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna við birtingu tilkynningarinnar. Eðli málsins samkvæmt fela slíkar staðhæfingar í sér óvissu. Athygli fjárfesta er vakin á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi félagsins og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í tilkynningunni. Þessi tilkynning verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar. Staðhæfingar sem finna má í þessari afkomutilkynningu gilda eingöngu á því tímamarki þegar tilkynningin er fyrst birt og takmarkast gildi þeirra við sem segir í fyrirvara þessum.