Fara á efnissvæði

Helstu atriði í afkomu þriðja ársfjórðungs  

Heilt yfir var rekstur félagsins undir væntingum á þriðja ársfjórðungi.

  • Ágætt magn var í siglingakerfinu á fjórðungnum og óx um 1,5% en meðalflutningsverð lækka á fjórðungnum samanborið við sama tímabil í fyrra.
  • Veruleg lækkun á alþjóðlegum flutningsverðum hafði áhrif á alþjóðlegu flutningsmiðlunina á fjórðungnum, sem skilaði þó ásættanlegri niðurstöðu.
  • Önnur flutningatengd þjónusta skilaði góðum árangri þar sem lækkun tekna var mætt með enn lægri rekstrarkostnaði, en mikil áhersla hefur verið á þennan hluta starfseminnar allt þetta ár. 

Tekjur námu 204,7 milljónum evra og lækkuðu um 14,3 milljónir evra eða 6,5% samanborið við þriðja ársfjórðung 2024.

Rekstrarkostnaður nam 184,3 milljónum evra og lækkaði um 1,8 milljónir evra eða 1,0% frá fyrra ári.

  • Launakostnaður jókst um 3,0 milljónir evra milli ára sem jafngildir 8,1% hækkun, en hækkunina má að mestu rekja til  kjarasamningsbundinna launahækkana á Íslandi sem og gengisáhrifa.

EBITDA fjórðungsins nam 20,4 milljónum evra samanborið við 32,9 milljónir evra á sama tímabili 2024, sem er lækkun um 38,0%. EBITDA hlutfall var 10,0% samanborið við 15,0% á sama fjórðungi fyrra árs. Einskiptisliðir skekkja samanburð á milli tímabila þar sem 2,2 milljóna evra jákvæð tekjufærsla átti sér stað á þriðja ársfjórðungi síðasta árs samanborið við neikvæða færslu upp á 2,9 milljónir á þriðja fjórðungi þessa árs vegna sölutaps á Lagarfossi á fjórðungnum.

Afkoma eftir skatta var 5,6 milljónir evra á fjórðungnum samanborið við 14,3 milljónir evra á sama tímabili í fyrra.

Lausafjárstaða var sterk í lok tímabilsins þrátt fyrir lægra sjóðstreymi frá rekstri en undanfarin misseri.

Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri

„Þriðji ársfjórðungur 2025 var krefjandi og var reksturinn undir væntingum en EBITDA á fjórðungnum nam 20,4 milljónum evra og lækkaði um 12,5 milljónir evra frá sama tíma í fyrra. Að hluta til má útskýra þessa lækkun vegna tveggja einskiptisliða. Á þriðja ársfjórðungi 2024 féll til 2,2 milljóna evra jákvæður einskiptisliður en sölutap vegna Lagarfoss nam 2,9 milljón evrum á þriðja ársfjórðungi í ár. Þetta skýrir 5,1 milljóna evra mun á milli ára.

Tekjur lækkuðu á fjórðungnum um 6,5% en sú þróun er drifin áfram af neikvæðri þróun einingaverða í siglingakerfinu, mikilli lækkun á alþjóðlegum flutningsverðum, minna magni í landflutningum á Íslandi og Færeyjum sem og tekjutapi í hafnarstarfsemi vegna lokunar PCC á Bakka. Á sama tíma lækkaði kostnaður um 1,0% þrátt fyrir 8,1% hækkun launakostnaðar.

Einingaverð í siglingakerfinu hafa lækkað umfram það sem rekstrargrundvöllur siglingakerfisins þolir og er afkoman neikvæð á tímabilinu, þrátt fyrir aukið flutningsmagn. Í júlí síðastliðnum var tekin ákvörðun um að fækka eigin skipum í flota félagsins þegar Lagarfoss var seldur og í framhaldinu hætti félagið sérstökum strandsiglingum, að minnsta kosti tímabundið.  Ákvörðun um fækkun í skipaflota félagsins byggði á minnkun magns vegna lokunar PCC á Bakka, auknum þrýstingi á meðalflutningsverð, hækkunar launakostnaðar, auknum álögum hafnarsamlaga hér á landi sem og auknum kostnaði við komur til erlendra hafna.

Frá árinu 2019 til 2024 hækkuðu gjöld þeirra hafnarsamlaga sem strandskipið sigldi til um rúmlega 60% á sama tíma og verðbólga hækkaði um 38%. Tvöföld skattlagning í formi grænna skatta bættist við kostnað við strandsiglingar þar sem ETS gjaldið, sem byrjaði 2024, bættist við kolefnisgjald sem áður var til staðar. Umræddir kolefnisskattar hafa hækkað um 197% frá byrjun árs 2023.

Það var ánægjulegt að sjá góða afkomu í annarri flutningatengdri starfsemi, sér í lagi að sjá afrakstur markvissra aðgerða til að lækka kostnað og bæta nýtingu fastafjármuna í vöruhúsa-, frystigeymslu- og landflutningastarfsemi. Sú vegferð sem við höfum verið á allt þetta ár mun halda áfram en við teljum að enn séu tækifæri til hagræðingar í rekstri þessara eininga.

Alþjóðlega flutningsmiðlunin skilaði ásættanlegri niðurstöðu með auknum umsvifum þrátt fyrir verulegar lækkanir á heimsmarkaðsverði og færri stór verkefni miðað við sama tímabil í fyrra.

Launakostnaður hefur haldið áfram að hækka en laun hækkuðu um 3,0 milljónir evra á fjórðungnum eða um 8,1% frá sama tíma í fyrra. Hækkunin skýrist að mestu leyti af kjarasamningum á Íslandi, þar sem um 60% launakostnaðar félagsins í heild er tilkominn, en hinsvegar nam hækkun íslenska hluta starfseminnar 83% af heildarhækkun launakostnaðar. Það er alveg ljóst að launahækkanir á Íslandi síðustu ár eru ekki sjálfbærar til lengri tíma litið og setja verulegan þrýsting á rekstur félagsins og draga úr samkeppnishæfni.

Nýlegar fréttir af framleiðsluskerðingu hjá Norðuráli og tímabundinni lokun PCC á Bakka koma til með að hafa veruleg áhrif á flutningsmagn og afkomu félagsins. Mestu áhrifin verða á siglingakerfið og hafnarstarfsemi félagsins en áætluð minnkun í magni jafngildir um 8% af heildarmagni siglingarkerfisins á þriðja ársfjórðungi.

Á undanförnum mánuðum hefur verið unnið af margvíslegum mótvægisaðgerðum til að mæta rekstraráskorunum. Fyrrnefnd fækkun í skipaflota er stærsta einstaka aðgerðin en kostnaðaraukning vegna landflutninga á því magni sem áður fór í sérstakt strandskip kemur þó á móti þeirri hagræðingu að einhverju leiti. Að auki eru fjölmörg önnur verkefni hafin og áætlað er að allar þessar aðgerðir skili árlegum sparnaði upp á 12–14 milljónum evra. Hluta þessara aðgerða hefur þegar verið hrint í framkvæmd og munu þær hafa jákvæð áhrif á reksturinn næstu fjórðunga. Á þriðja og fjórða ársfjórðungi þessa árs hefur stöðugildum hjá félaginu jafnframt fækkað um 46, bæði á Íslandi og erlendis. Fækkunin er samblanda af uppsögnum og aðhaldi í starfsmannaráðningum vegna eðlilegrar starfsmannaveltu.

Þar að auki hafa aðrar hagræðingaraðgerðir verið skilgreindar en áhrif þeirra eru enn ómæld. Einnig eru ýmsar tekjustýringaraðgerðir í undirbúningi sem munu styðja við reksturinn til framtíðar. Við munum áfram einblína á að styrkja grunnrekstur félagsins og sýna kostnaðaraðhald en jafnframt setja skýra verðstefnu í siglingakerfinu okkar sem endurspeglar þann kostnað sem felst í þjónustunni við viðskiptavini okkar.“

Kynningarfundur 12. nóvember 2025

Kynningarfundur fyrir fjárfesta og markaðsaðila verður haldinn miðvikudaginn 12. nóvember kl. 8:30 í höfuðstöðvum félagsins Sundabakka 2, 2. hæð. Fundurinn verður einnig rafrænn og verður honum streymt beint á fjárfestasíðu Eimskips, www.eimskip.com/investors. Þar munu Vilhelm Már Þorsteinsson forstjóri og Rósa Guðmundsdóttir fjármálastjóri kynna uppgjör félagsins fyrir þriðja ársfjórðung. Uppgjörsgögn og upptöku af fundinum verður einnig hægt að nálgast á fjárfestasíðunni.

Frekari upplýsingar

Rósa Guðmundsdóttir, fjármálastjóri, sími: 844 4776, netfang: investors@eimskip.com
Guðbjörg Birna Björnsdóttir, forstöðumaður fjárstýringar og fjárfestatengsla, sími 844 4752, netfang: investors@eimskip.com

Til athugunar fyrir fjárfesta

Eimskip vekur athygli á því að staðhæfingar sem finna má í þessari afkomutilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna við birtingu tilkynningarinnar. Eðli málsins samkvæmt fela slíkar staðhæfingar í sér óvissu. Athygli fjárfesta er vakin á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi félagsins og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í tilkynningunni. Þessi tilkynning verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar. Staðhæfingar sem finna má í þessari afkomutilkynningu gilda eingöngu á því tímamarki þegar tilkynningin er fyrst birt og takmarkast gildi þeirra við sem segir í fyrirvara þessum.