Fara á efnissvæði

Dagatal Eimskips fyrir komandi ár er komið út. Þar fangar ljósmyndarinn Rán Bjargardóttir óvænt sjónarhorn á íslenska náttúru – inn til fjalla og úti við strönd – og deilir sinni einstöku upplifun af snertingu við landið. Hún ólst að hluta upp á Vestfjörðum, laðast gjarnan að földum perlum Íslands og veitir þeim stöðum athygli sem færri taka eftir. Rán er fyrsta konan sem á allar myndirnar í dagatali Eimskips og gerir það nú annað árið í röð.

Fyrsta dagatal Eimskipafélags Íslands var gefið út árið 1928 og skartaði teikningu eftir Tryggva Magnússon. Þetta mæltist vel fyrir og hafa dagatöl félagsins komið út síðan, að frátöldum árunum 1944 og 1965. Í fyrra skiptið vegna pappírsskorts á stríðsárunum og í seinna skiptið vegna sparnaðarsjónarmiða. Að öðru leyti hefur þessi hefð haldið sjó og bætist nú dagatalið 2026 í hópinn, það 96. í röðinni.

Þú getur nálgast eintak í höfuðstöðvum Eimskips, Sundabakka 2, eða á næsta afgreiðslustað Eimskips um land allt.

Á myndinni má sjá Þjórsá í öllu sínu veldi.