Fara á efnissvæði

Sjávarútvegssýningin Seafood Expo Global / Seafood Processing Global fer fram þessa dagana í Barcelona og er Eimskip meðal þátttakenda með eigin bás, líkt og undanfarin ár.

„Það er alltaf margt á döfinni hjá okkur í Eimskip og sýningin í Barcelona er þar engin undantekning. Sem leiðandi flutningafyrirtæki í Norður-Atlantshafi, með sérhæfingu í flutningi á frystum og kældum vörum, er sýningin mikilvægur vettvangur til að hitta viðskiptavini víðs vegar að úr heiminum, efla tengsl og ræða ný tækifæri í þjónustu og flutningum,“ segir Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips.

Á sýningunni er starfsfólk Eimskips frá skrifstofum í 11 löndum, sem undirstrikar alþjóðlega starfsemi félagsins í 20 löndum og öflugt tengslanet víða um heim. Góð stemning og mikil þátttaka hefur verið á básnum, þar sem umferð hefur verið stöðug og umræðurnar fjölbreyttar og markvissar.

Félagið hélt venju samkvæmt vel lukkað viðskiptavinahóf, þar sem aðsókn var mjög góð. „Við þökkum kærlega fyrir komuna í hófið og hlökkum til að taka á móti enn fleiri gestum á básnum í dag“, bætir Vilhelm við að lokum.