Fara á efnissvæði

Í dag kynnti Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips, nýja stefnu félagsins á viðburði í Vöruhótelinu að Sundabakka í Reykjavík. Kynningunni var streymt beint fyrir starfsfólk um land allt, en alls mættu um 400 starfsmenn á höfuðborgarsvæðinu á fundinn. Auk viðburðarins á Íslandi voru haldnar þrjár kynningar á mismunandi tímum yfir netið svo starfsfólk félagsins í Asíu, Evrópu og Norður- og Suður-Ameríku fengi sömu upplýsingar samdægurs. Hátt í 1400 manns tóku þátt í viðburðum dagsins, en alls starfa um 1700 manns hjá félaginu í 20 löndum.

Vilhelm sagði í ávarpi sínu að þetta væri uppskera mikillar vinnu:
„Í dag kynntum við vegferð sem hófst haustið 2025 með víðtækri stefnumótun. Ég er stoltur og spenntur fyrir þessari nýju stefnu – hún er afrakstur mikillar samvinnu, hugmynda starfsfólks og samtals við viðskiptavini – samvinna sem hefur skilað sér í heildstæðri stefnu fyrir framtíðina.

Með henni styrkjum við hlutverk Eimskips sem lykilaðila í alþjóðlegum flutningum og efnahagslífi Íslands undir áherslunni okkar lausnir, þinn árangur. Við vitum hvert við stefnum – að tengja samfélög og skapa hagsæld – og við gerum það saman, byggt á gildum sem sýna hvað við stöndum fyrir: Liðsheild, framsækni, áreiðanleiki og virðing.“

Stefnumótunin var unnin undir heitinu Eimskip 3.0 og var leidd áfram og unnin af starfsfólki félagsins. Hægt er að kynna sér hana nánar hér.