Fara á efnissvæði

Stjórn Eimskipafélags Íslands hf. hefur samþykkt samninga um smíði á tveimur 2.280 gámaeininga skipum og leigu þeirra til tíu ára í gegnum ElbFeeder, sem er þýskt hlutdeildarfélag í 48% eigu Eimskips. Skipin munu þjóna vöruflutningum á Bláu leið félagsins, milli Reykjavíkur og Rotterdam sem og Teesport í Bretlandi. Gert er ráð fyrir að skipin verði afhent seinni hluta árs 2028.

Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips:
„Það er mjög ánægjulegt að stíga þetta mikilvæga skref í endurnýjun skipaflotans. Við sjáum mikil tækifæri með tilkomu nýju skipanna, sérstaklega þegar horft er til þeirra metnaðarfullu áforma sem snúa að auknum útflutningi á ferskum sjávarafurðum og laxi.  Þá höfum við á undanförnum árum séð mikinn þrótt í Trans-Atlantic flutningum okkar frá Evrópu til Norður-Ameríku, sem er meginforsenda vikulegra siglinga milli Íslands og Norður-Ameríku, og munu nýju skipin styðja við frekari vöxt á þeirri þjónustu.

Við erum stolt af því að í hönnun skipanna verður lögð mikil áhersla á þjónustu við viðskiptavini, hagkvæman rekstur og áreiðanleika. Hönnunin skapar einnig tækifæri á að skipta yfir í aðra orkugjafa þegar þeir verða aðgengilegir og raunverulegur valkostur, sem styður við umhverfisvegferð félagsins.

Það góða samstarf og traust sem við höfum átt við meðeigendur okkar í  ElbFeeder frá upphafi,  Ernst Russ í Þýskalandi, endurspeglast í þessari jákvæðu niðurstöðu og styrkir áframhaldandi samstarf.“

Stærstu skip félagsins hönnuð í takt við þarfir viðskiptavina

Skipin verða sérstaklega hönnuð með þjónustuþarfir viðskiptavina í huga og áhersla er lögð á hraðskeið og áreiðanleg skip með mikla stjórnhæfni, sem henta í þeim aðstæðum sem félagið starfar í á Norður-Atlantshafi.  Skipin verða 2.280 gámaeiningar að stærð, 185 metra löng og 29,4 metra breið og verða stærstu skip í rekstri félagsins frá upphafi. Til samanburðar eru Brúarfoss og Dettifoss, nýjustu skip í flota Eimskips, 2.150 gámaeiningar að stærð.  

Auk þess að vera hönnuð til að mæta þörfum um siglingahraða á hagkvæman hátt þá er einnig lögð áhersla á sem hagkvæmustu orkunýtingu, meðal annars í  hönnun á skipskrokki, sílikonhúðun á botni, raftengibúnaði í höfnum og við val á öðrum búnaði. Þá munu skipin styðja við væntanleg orkuskipti, þar sem stigin eru mikilvæg skref í hönnun og smíði til að undirbúa þau fyrir aðra orkugjafa, metanól eða LNG, í takt við umhverfistefnu félagsins.

10 ára leigusamningur við ElbFeeder

ElbFeeder á í dag sjö gámaskip og hefur rekstur félagsins verið sterkur á undanförnum árum. Félagið er vel í stakk búið að fjárfesta í nýjum skipum og verða nýsmíðarnar að fullu fjármagnaðar í gegnum ElbFeeder. Áætluð leiguskuldbinding Eimskips vegna 10 ára leigusamnings við ElbFeeder mun nema um 86 milljónum dollara og koma fram í efnahagsreikningi félagsins árið 2028 en á móti mun leiguskuldbinding vegna núverandi leiguskipa á Bláu leiðinni detta út.

ElbFeeder, í meirihlutaeigu þýska skiparekstrarfélagsins Ernst Russ sem er skráð í kauphöllina í Frankfurt, hefur samið um smíði skipanna við skipasmíðastöðina China Merchants Jin Ling Shipyard (Nanjing) Co. Ltd. Samhliða hefur Eimskip gert leigusamning á skipunum til tíu ára eins og áður kom fram.

Joseph Schuchmann, framkvæmdastjóri Ernst Russ:
„Þessi fjárfesting markar tímamót fyrir Ernst Russ þar sem um er að ræða fyrstu nýsmíða fjárfestingu okkar í langan tíma. Við erum mjög ánægð að geta hrint henni í framkvæmd í samstarfi við Eimskip, samstarfsaðila til margra ára, sem mun einnig gegna hlutverki sem langtíma leigutaki og með því tryggja fjárhagslega burði verkefnisins.“

Testing