Eimskip hefur nú gert stóran hluta af safneign listaverka sinna aðgengilegan á vef sínum, undir slóðinni www.eimskip.is/listaverk
Allt frá stofnun Eimskips árið 1914 hefur félagið átt ríkuleg tengsl við íslenska myndlist. Íslenskir listamenn sem fóru á árum áður að sýna verk sín erlendis nutu jafnan sérstakra kjara hjá Eimskipafélaginu og mjög fljótlega fór félagið að safna listaverkum og varð til myndarleg safneign. Sú safneign telur nú hátt í 500 verk og heldur áfram að stækka.
Á 110 ára afmæli Eimskips fyrir tæpum tveimur árum síðan opnaði fyrirtækið höfuðstöðvar sínar og bauð landsmönnum í heimsókn á listasýninguna Hafið hugann ber. Þar voru 110 valin verk úr safneigninni dregin fram og stillt upp í takt við hönnun skrifstofurýmisins að Sundabakka, en eins og gefur að skilja er hafið, hafnarstörf og siglingar viðfangsefnið í fjölmörgum verkanna.
„Það er afar ánægjulegt að geta loksins kynnt þjóðinni þessi einstöku verk sem eru í eigu okkar. Safnið hefur byggst upp yfir langt tímabil og er því orðið nokkuð stórt. Verkefnið endurspeglar vel stefnu okkar um að styðja við listir og menningu, áherslur sem við höfum markvisst ræktað, meðal annars í gegnum Listasjóð Eimskips“ segir Vilhelm Þorsteinsson, forstjóri Eimskips.
Listaverkavefurinn var formlega opnaður á dögunum þegar styrkir ársins 2025 voru veittir úr Listasjóði Eimskips, en styrkirnir renna til upprennandi listafólks á Íslandi.
Verkin á vefnum birtast í röð skv. titli, en einnig er hægt að leita eftir heiti listamanns. Mörg listaverkanna eru eftir frumkvöðla í íslenskri myndlistarsögu en þar að auki má finna fjölda verka eftir yngri starfandi listamenn.
Safnið veitir þannig góða yfirsýn yfir þróun íslenskrar myndlistar. Verkin bera vott um sögu menningu og þjóðar og eru um leið hvatning til núlifandi Íslendinga um farsæla framtíð.