Eimskip hefur ráðið Hauk Þór Arnarson sem forstöðumann launadeildar félagsins. Launadeildin fer með stefnumótun launa, launavinnslu á Íslandi og framkvæmd kjarasamninga innan félagsins og heyrir undir Mannauðs- og samskiptasvið sem annast mannauðs-, markaðs- og samskiptamál Eimskips.
„Það er ánægjulegt að fá Hauk Þór til liðs við okkur. Hann bætir við teymið mikilli reynslu og þekkingu á sviði launa- og kjaramála sem mun nýtast vel í áframhaldandi þróun og faglegri uppbyggingu deildarinnar. Sú staðreynd að hann hefur jafnframt starfað sem mannauðsstjóri skapar aukin tækifæri til samhæfingar og þjónustu við stjórnendur og starfsfólk félagsins,“ segir Harpa Hödd Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og samskiptasviðs hjá Eimskip.
Áralöng reynsla af launa- og mannauðsmálum
Haukur Þór kemur til Eimskips með víðtæka reynslu úr launavinnslu og mannauðsstjórnun. Hann hefur gegnt lykilhlutverkum hjá Isavia, Hafnarfjarðarbæ og Suðurnesjabæ, þar sem hann starfaði nú síðast sem mannauðsstjóri og yfirmaður launadeildar. Haukur er með B.Sc.-gráðu í viðskiptafræði, fjármálum og stjórnun frá Háskólanum á Akureyri.
„Ég er þakklátur fyrir að fá að vera hluti af frábæru teymi sem vinnur hjá Eimskip. Ég hlakka mikið til að vinna með ykkur öllum, læra af reynslu ykkar og leggja mitt af mörkum til áframhaldandi vaxtar og velgengni fyrirtækisins. Ég er spenntur fyrir áskorunum og tækifærum sem fram undan eru hjá fyrirtækinu,“ segir Haukur Þór.