Fara á efnissvæði

Eimskip styrkir á hverju ári fjölmörg verkefni í íslensku samfélagi, eins og fram kemur í nýlegri sjálfbærniskýrslu félagsins. Sérstök áhersla er lögð annars vegar á verkefni sem snúa að öryggi og forvörnum í leik og starfi og hins vegar þau sem stuðla að verndun umhverfis á landi og sjó.

Á árinu 2023 styrkti Eimskip alls 226 verkefni fyrir samtals rúmar 118 milljónir króna. Dæmi um verkefni sem félagið kemur að eru:

  • Eimskip er einn af aðalstyrktaraðilum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar þar sem sérstök áhersla er lögð á forvarnarmál.
  • Samstarf Eimskips og Kiwanis sem færa öllum börnum í 1. bekk reiðhjólahjálma að gjöf.
  • Samstarf með Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi um endurvinnslu veiðarfæra.
Styrkir Frétt 2024
Yfirlit yfir styrki Eimskips 2023

Þá er íþrótta- og æskulýðsstarf einn af stærstu málaflokkunum í styrkveitingum Eimskips, en 29% styrkjanna runnu til slíkra verkefna. Alls 51 íþróttafélag eða stök verkefni voru styrkt og er Eimskip stolt af því að styðja við þetta mikilvæga starf félaganna í landinu sem svo sannarlega hefur mikið forvarnargildi.

Lista- og menningarlíf Íslendinga hefur lengi verið hátt skrifað í huga félagsins. Eimskip styrkir hinar ýmsu bæjar- og tónlistarhátíðir, t.a.m. Aldrei fór ég Suður. Þá hefur dótturfélag Eimskips, TVG-Zimsen, löngum séð um flutning á búnaði fyrir hátíðina Iceland Airwaves og tengist hátíðinni sterkum böndum. Að lokum er Eimskip stoltur styrktaraðili leikfélagsins Vesturports sem nú sýnir söngleikinn Frost fyrir fullu Þjóðleikhúsi og hýsir meðal annars leikmyndir og sér um flutning fyrir leikfélagið. 

Það er okkur mikil ánægja að geta stutt ríkulega við íslenskt samfélag og þannig komið góðu til leiðar.

Hægt er að fræðast frekar um styrktarstefnu Eimskips hér: