Á dögunum náði viðskiptavinur Eimskips, laxeldisfyrirtækið First Water, merkum áfanga þegar fyrirtækið hóf slátrun og pökkun á 5 kílóa slægðum laxi til útflutnings. Með þessu varð First Water eitt af fyrstu landeldisfyrirtækjum heims til að bjóða upp á slíka vöru.
Mikill áhugi er á íslenskum gæðalaxi á alþjóðamörkuðum, sem sýnir sig best í því að allur fyrsti framleiðsluskammtur First Water hefur þegar verið seldur til kaupenda erlendis og verður lestað um borð í skip Eimskips í dag.
„Hröð og áreiðanleg þjónusta er lykilatriði í að hámarka verðmæti ferskra afurða og stöðugt framboð á erlendum mörkuðum. Í hverri viku bjóðum við hraða og áreiðanlega þjónustu fyrir ferskar afurðir inn á lykilmarkaði íslenskra framleiðenda. Með leiðakerfi Eimskips tryggjum við 4 daga flutningstíma frá Íslandi til Evrópu og 7 daga flutningstíma inn á Ameríkumarkað“ segir Hjörvar Blær Guðmundsson, forstöðumaður útflutningsdeildar Eimskips.
„Þessi áfangi með 5 kg. laxinn er ekki aðeins stórt skref fyrir First Water heldur einnig fyrir íslenskan sjávarútveg og nýsköpun í landeldi. Eimskip er stolt af því að vera hluti af þessari vegferð með því að tryggja örugga og hraða flutninga á ferskum afurðum til helstu markaða. Samstarf okkar við First Water endurspeglar sameiginlega sýn um áreiðanleika, gæði og sjálfbærni í allri virðiskeðjunni. Við óskum starfsfólki First Water innilega til hamingju með þennan árangur og hlökkum til áframhaldandi samstarfs á komandi árum“ segir Hjörvar að lokum.