Fara á efnissvæði

Í gær fór fram úthlutun styrkja úr Listasjóði Eimskips, en þetta er annað árið sem úthlutað er úr sjóðnum. Sjóðurinn var stofnaður árið 2024 og er markmið hans að styrkja upprennandi myndlistarmenn á Íslandi, en heildarfé hverrar úthlutunar er 3 milljónir króna.

Val á styrkhöfum er í höndum stjórnar Listasjóðsins, en hana skipa Óskar Magnússon, stjórnarformaður félagsins og rithöfundur, Guðmundur Hagalínsson, fyrrum starfsmaður Eimskips til áratuga með sérþekkingu á safneign félagsins og Katrín Eyjólfsdóttir, listfræðingur og sýningarstjóri sýningarinnar Hafið hugann ber.

Alls bárust 59 umsóknir í ár, en þau þrjú sem hlutu styrk upp á eina milljón króna á mann eru þau Fritz Hendrik Berndsen, Helga Páley Friðþjófsdóttir og Julie Sjöfn Gasiglia. 

Fritz Hendrik Berndsen er fæddur árið 1993 og býr og starfar í Reykjavík. Í umsögn dómnefndar segir:
„Listsköpun Fritz Hendrik byggir á forvitni hans um sjálfa tilveruna og þau fjölbreyttu form sem hún getur tekið, eftir því hvernig við veljum að horfa á heiminn. Í verkunum endurspeglast sú hugmynd að veruleikinn sé síbreytilegur og að upplifun okkar mótist af sjónarhorni, nærveru og athugun. Með þessari nálgun tekst listamanninum að skapa flókið og heillandi samtal milli áhorfanda og verks, þar sem hvorugt er einhlítt - heldur kvikt og opið fyrir nýrri merkingu.

Sýningar listamannsins mynda ríka hugmyndafræðilega heild sem engu að síður viðheldur leikandi frelsi og margvíslegum túlkunarmöguleikum. Áhorfandinn er hvattur til að staldra við, skoða og endurskilgreina eigin væntingar um list og veruleika. 
Nálgun listamannsins er bæði fræðileg og tilraunakennd. Hann nýtir heimspekilegar hugmyndir til að kanna eðli reynslu og þekkingar, en jafnframt dregur hann inn áhrif úr hversdagsleikanum og hinu persónulega. Sterk tenging við handverkið liggur að baki listsköpun Fritz, jafnt sem um er að ræða útfærslur á tvívíðum verkum og þrívíðum.

Fritz vinnur verk sín af einlægni, innsæi og óbeislaðri forvitni; sem hvetur áhorfendur til að sjá heiminn allan upp á nýtt.“

Helga Páley Friðþjófsdóttir er fædd árið 1987 og býr og starfar í Reykjavík. Í umsögn dómnefndar segir:
„Listsköpun Helgu Páleyjar Friðþjófsdóttur á sér rætur bæði í teikningunni sem og í málverkinu, miðlum sem hún nálgast bæði sem rannsókn og samtal við sjálfa sköpunina. Í verkum hennar eru form, litir og áferð látnir þróast í rólegu, hugleiðandi ferli þar sem hvert lag af málningu verður að nýjum þætti í frásögninni. Hún byggir upp myndir sem síðan eru skafnar niður, umbreyttar og unnar á ný — þar til þær finna þann jafnvægispunkt sem kallar fram réttan tón á striganum. Þessi endurtekna tilurð skapar verk sem eru bæði brothætt og ákveðin, opin og þó áþreifanlega nærverandi.

Málverkið er fyrir Helgu ekki aðeins mynd, heldur leiðarvísir; safn minninga sem birtist í hreyfingu og uppbyggingu litanna. Hún lítur á myndlistina sem eins konar trekt sem flokkar, sía og endurspeglar það sem verður á vegi hennar, hvort sem um er að ræða hugmyndir, tilfinningar eða óljósar myndir úr daglegu lífi. Þessi nálgun gerir verk Helgu persónuleg og samtímis algild — þau tala til áhorfandans á óorðuðu tungumáli þar sem leifar minninga og myndbrota renna saman í nýja heild.

Helga Páley skapar þannig verk sem eru ekki aðeins sjónræn reynsla heldur um leið ferli íhugunar. Þau bjóða áhorfandanum að nema staðar, fylgja litnum eftir og finna í sér samsvörun við þá kyrru en lifandi orku sem einkennir málverkið hennar.“

Julie Sjöfn Gasiglia er fædd árið 1990 og býr og starfar í Reykjavík. Í umsögn dómnefndar segir:
„Listsköpun Julie Sjafnar mótast af dýpri rannsókn á sambandinu milli mannkyns og náttúrunnar, sambandi sem hún upplifir á sama tíma náið og óljóst, nærverandi og þó fjarlægt. Í verkum hennar endurspeglast löngun til að tengjast hinum lifandi heimi á ný — að skilja stöðu mannsins í umhverfi sem hann bæði er hluti af og hefur áhrif á. Þessi áleitna togstreita verður drifkraftur í hugmyndavinnu hennar og markar þá fagurfræðilegu stefnu sem einkennir myndlistina.

Verk Julie eru skynrænar rannsóknir á því hvernig mannleg tilvist, athafnir og samfélagsgerð móta landslagið, bæði það náttúrulega og það manngerða. Hún nálgast efnið af gagnrýninni forvitni og notar sjónræna tjáningu ekki til að svara spurningum heldur til að opna rými þar sem áhorfendur geta íhugað eigin sýn á náttúru, vald og samlíf tegunda. Hvort sem hún vinnur með votlendi, þarmaflóru eða borgarskapað landslag, þá kallar list hennar fram nýjar spurningar um ábyrgð, þátttöku og tengslanet lífsins.

Margvíslegur efniviður leikur stórt hlutverk í ferlinu. Hún vinnur með leir, málm, hljóð og rafeindatækni, og leyfir efnum að leiða sig áfram. Þannig verða skúlptúrar og innsetningar til í samspili innsæis, tilraunagleði og rannsóknarvinnu. Þrátt fyrir fræðilegar undirstöður er ferlið lifandi, sveigjanlegt og opið — og gefur verkunum þá óræðu og heillandi nærveru sem einkennir listræna rödd Julie Sjafnar.“

Við þökkum kærlega fyrir allar umsóknir sem bárust í ár og óskum nýjum styrkhöfum til hamingju. Næsta úthlutun sjóðsins fer fram í desember 2026 og opnar fyrir umsóknir á haustmánuðum.