Fara á efnissvæði

Frá miðnætti 13. maí síðastliðinn hefur staðið yfir verkfall verkafólks í Færeyjum eftir að upp úr kjarasamningsviðræðum slitnaði milli fjögurra verkalýðsfélaga og  Samtaka Atvinnulífsins þar í landi. Dótturfélag Eimskips, Faroe Ship er starfrækt í Færeyjum og hefur verkfallið mikil áhrif á starfsemi þess félags en frá því verkfallið hófst hefur hafnar-, vöruhúsa, frystageymslu- og akstursstarfsemi Faroe Ship legið niðri að mestu en tæplega helmingur starfsfólks félagsins er nú í verkfalli. Í áætlunarsiglingum sínum hefur Eimskip viðkomu í Færeyjum fjórum sinnum í viku en félagið hefur þurft að aðlaga áætlunina eftir að verkfallið skall á enda hvorki hægt að lesta né losa skip þar sem stendur. Verkfallið hefur ekki haft teljandi fjárhagslega áhrif á Eimskip enn sem komið er en dragist það á langinn er viðbúið að áhrifin verði víðtækari. Vonast er til þess að aðilar nái saman sem allra fyrst svo hægt sé að hefja eðlilega þjónustu við viðskiptavini að nýju.