Viðgerð á aðalvél flutningaskipsins Dettifoss gekk vel og er nú lokið. Skipið var gangsett og prófað í gær og gekk allt samkvæmt áætlun. Lestun fór fram í gærkvöld fyrir áframhaldandi siglingu.
Skipið heldur áfram áætlun sinni um hádegi í dag, fimmtudag. Áætlað er að það komi til hafnar á Reyðarfirði á föstudag og haldi þaðan áfram til Færeyja.
Um tæplega sólarhrings seinkun er að ræða, en ekki er gert ráð fyrir frekari töfum. Skipið mun að mestu vinna upp tímann á útleið og verða komið á rétta áætlun við heimför.