Brúarfoss afhentur í dag

09. október 2020 | Fréttir
Brúarfoss afhentur í dag

Eimskip fékk í dag nýja skip sitt, Brúarfoss, afhent við hátíðlega athöfn í Kína í morgun. Brúarfoss er seinna af tveimur 2.150 gámaeininga skipum sem félagið hefur verið með í smíðum í Kína en í byrjun maí fékk félagið systurskipið, Dettifoss, afhent. Afhending Brúarfoss er lokahnykkurinn endurnýjun gámaskipaflotans en með þessum tveimur nýsmíðum verða siglingar Eimskips bæði áreiðanlegri og umhverfisvænni miðað við flutta einingu.

Áhöfn og starfsmenn Eimskips hafa verið í Kína undanfarnar vikur til að undirbúa afhendingu skipsins. Karl Guðmundsson, skipstjóri, skrifaði formlega undir afhendinguna í morgun og verður þar með hafist handa við það að sigla skipinu heim.

Á myndinni eru Karl Guðmundsson, skipstjóri, LiXi stjórnarformaður skipasmíðastöðvarinnar í Guangzhou, Kau Huang frá China Shipbuilding Trading Co. ásamt Heimi Karlssyni yfirstýrimanni, Erni Engilbertssyni yfirvélstjóra og fulltrúum frá skipasmíðastöðinni.

Brúarfoss mun leggja af stað til Evrópu á næstu dögum og fara svipaða leið og Dettifoss fór í sumar. Skipið mun sigla frá skipasmíðastöðinni í Guangzhou til Taicang í Kína þar sem farmur verður lestaður. Þaðan svo með viðkomu í Singapore og gegnum Suez skurðinn inn í Miðjarðarhafið. Siglt verður til Rotterdam og svo til Danmerkur þar sem það mun koma inn í siglingaáætlun félagsins. Áætlað er að Brúarfoss hefji siglingar í siglingakerfi Eimskips í seinni hluta nóvember.

Skipin í tölum:

  • Lengd – 180 metra
  • Breidd – 31 metra
  • Burðageta – 2.150 gámaeiningar
  • Aðalvél – 17,000 kW (23,000 hp)

 

Nánar má lesa um skipin tvö í fyrri frétt um afhendingu Dettifoss.