Eimskip bætir við fjórða skipinu á Norður Ameríku leiðina

28. október 2022 | Fréttir
Eimskip bætir við fjórða skipinu á Norður Ameríku leiðina

Eimskip hefur tekið í rekstur nýtt leiguskip, Star Comet, sem gerir félaginu kleift að bæta fjórða skipinu við á Norður Ameríku leiðina til að mæta mikilli eftirspurn vestur um haf. Félagið rekur í dag þrjú skip á þessari leið, tvö sem eru 900 gámaeiningar og eitt sem er 700 gámaeiningar á vikulegri þjónustu. Fjórða skipið, sem er 700 gámaeiningar, mun bætast við þjónustuna um miðjan nóvember og verður áætlun stillt þannig upp að bæði 700 gámaeiningaskipin sigla í sömu viku með áætlaða brottför frá Reykjavík á þriðjudögum og föstudögum.

Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips:
„Við erum ánægð að geta mætt þeirri miklu eftirspurn sem við finnum fyrir eftir flutningum á Norður Ameríku leiðinni okkar með því að bæta við fjórða skipinu. Þær breytingar sem við gerðum á siglingakerfinu okkar á síðasta ári þar sem við styttum flutningstímann frá Færeyjum og Íslandi til Norður Ameríku hafa reynst vel og opnað ný tækifæri t.d. fyrir flutning á ferskum laxi yfir hafið á umhverfisvænni hátt en með flugi. Það að bjóða grænar lausnir í flutningum er mjög í samræmi við okkar áherslur í umhverfismálunum. Með okkar áreiðanlega siglingakerfi heldur þessi þjónusta áfram að vera frábær kostur fyrir viðskiptavini Eimskips í flutningum á þurrvörum, frystum og kældum vörum.“

Í vikunni kom upp bilun í leiguskipinu EF Ava og gert er ráð fyrir að viðgerð muni taka rúmar tvær vikur. Nýja leiguskipið, Star Comet, er nú þegar komið í þjónustu Eimskips og mun það skip nýtast til að brúa bilið þar til viðgerð er lokið. Þar af leiðandi mun einungis verða minniháttar röskun á siglingaþjónustu vegna bilunarinnar í EF Ava.