Rafvæðing Sundabakka hefst á þessu ári

15. maí 2020 | Fréttir
Rafvæðing Sundabakka hefst á þessu ári

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Reykjavíkurborg, Faxaflóahafnir, Veitur og Eimskip skrifuðu í dag undir viljayfirlýsingu um að koma upp og taka í notkun háspennutengibúnað fyrir flutningaskip á Sundabakka. Um er að ræða fyrsta áfanga í tímamótaverkefni á sviði loftslagsmála á Íslandi þar sem unnið er sameiginlega að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og loftmengandi efna frá starfsemi hafnarsvæða í Reykjavík.

Veitur og Faxaflóahafnir sf. munu gera með sér samkomulag um eignarhald búnaðar á landi, fjármögnun og rekstrarfyrirkomulag en Eimskip mun annast nauðsynlegar breytingar á stærstu skipum félagsins á eigin kostnað þannig að þau megi landtengja í viðlegu. Umhverfis- og auðlindaráðuneyti mun svo styrkja verkefnið á Sundabakka þegar kaup á nauðsynlegum búnaði hafa verið staðfest.

Verkefnið er fyrsta skrefið á Íslandi í landtengingu stærri skipa sem þurfa háspennutengingu til móttöku á rafmagni í viðlegu í stað þess að keyra ljósavélar. Ávinningurinn af þessari aðgerð verður annars vegar minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda og hins vegar bætt loftgæði íbúa á svæðinu. Með búnaði fyrir háspennutengingar á Vogabakka og Sundabakka munu flutningaskip sem þar koma til hafnar geta tengst landrafmagni.

Eimskip er stolt af þeim árangri sem þegar hefur náðst í umhverfismálum og lítur á þetta sem enn eitt skrefið í átt að markmiði um minnkun kolefnisspors um 40% á næstu tíu árum.
Það eru 29 ár síðan fyrirtækið setti sér umhverfsstefnu, eitt af fyrstu íslenskum fyrirtækjum sem það gerðu. Margir litlir sigrar hafa unnist sem saman skila árangri og nú heldur sú vegferð áfram.

Vonir standa til þess að nauðsynlegur búnaður í þessum áfanga verði tilbúinn til notkunar á fyrri hluta árs 2021.