Rekstrarafkoma fyrstu sex mánuði ársins 3,8 milljarðar kr

30. janúar 2011 | Fréttir

Rekstrarafkoma (EBITDA) fyrstu sex mánuði ársins 3,8 milljarðar kr.
Afkoma eftir skatta 1,2 milljarður kr.
Nýju skipi bætt í þjónustu við Norður – Ameríku

Afkoma Eimskipafélagsins fyrir fyrstu sex mánuði árins 2011 eftir skatta var jákvæð um  1,2 milljarða króna (EUR 7,5 m) og rekstrarafkoma (EBITDA) var jákvæð um 3,8 milljarða króna ( EUR 23,6 m ). Heildareignir félagsins í lok júní voru 47,8 milljarðar króna (EUR 288 m) og var eiginfjárhlutfall 58,7%.  Vaxtaberandi skuldir voru 10,9 milljarðar króna (EUR 66 m). 

2. ársfjórðungur
Rekstrarafkoma (EBITDA) á öðrum ársfjórðungi var jákvæð um 1,7 milljarð króna (EUR 10,7 m) og afkoma eftir skatta var jákvæð um 300 milljónir króna (EUR 1,7 m).  Flutningamagn í flutningakerfum félagsins jókst um rúm 2% milli ára.

Gylfi Sigfússon forstjóri:
Eimskipafélagið stendur á mjög traustum grunni og hefur rekstur utan Íslands gengið vel og er um helmingur af veltu félagsins að koma frá erlendri starfsemi.   Reksturinn á Íslandi hefur gengið ágætlega þrátt fyrir kostnaðarhækkanir og almennt takmarkaðar ný framkvæmdir og fjárfestingar á Íslandi.  Starfsemi Eimskip krefst mikilla fastafjármuna og er mikilvægt að afkoman geti staðið undir endurnýjun þeirra.  Félagið hefur að undanförnu fjárfest í nýjum gámum, flutningabifreiðum og öðrum tækjum. Sjóðsstaðan er áfram sterk og er félagið nú að vinna að frekari endurnýjun á öðrum eignum.  Það er mjög mikilvægt fyrir Eimskip að viðhalda grunnstoð félagsins sem er flutningakerfið til að tryggja áfram góða og örugga þjónustu við viðskiptavini félagsins.
Til að efla enn frekar flutningaþjónustu Eimskips var nýju skipi bætt við flota félagsins í júli. Skipið Skógafoss mun þjóna Ameríku og Kanada siglingum félagsins ásamt Reykjafossi og styrkir þannig flutningakerfið á þessu markaðssvæði. 

Um Eimskip
Í dag er Eimskip með starfsemi í 16 löndum, með 19 skip í rekstri og hefur á að skipa 1240 starfsmönnum, þar af vinna um 720 starfsmenn á Íslandi. Stefna félagsins er að veita öfluga flutningaþjónustu á Norður Atlantshafi ásamt því að bjóða víðtæka alþjóðlega frystiflutningsmiðlun um allan heim.