Umhverfisuppgjör annars ársfjórðungs 2022

29. ágúst 2022 | Fréttir
Umhverfisuppgjör annars ársfjórðungs 2022

Eimskip hefur gefið út umhverfisskýrslu fyrir annan ársfjórðung 2022. Skýrslan gefur mikilvægt yfirlit um stöðu umhverfismála hverju sinni. Skýrsluna má lesa hér.

Nokkur þróun hefur verið á umhverfisuppgjöri félagsins frá fyrstu útgáfu þess. Í upphafi var megináhersla lögð á mælingar á losun skipa og á starfsemi á Íslandi, þar sem nokkur vissa var fyrir hendi að mestu umhverfisáhrifin í umfangi (e. scope) 1 og 2 lægju hjá þessum einingum. Eimskip vann í samstarfi við Klappir Solution og nýtir enn í dag lausn þeirra til að halda utan um UFS uppgjör sitt. Mörg áhugaverð verkefni hafa verið unnin í samvinnu við Klappir Solution, meðal annars rafvæðing skipadagbóka og reiknivél á netinu þar sem fyrirtæki og einstaklingar geta reiknað út sitt eigið kolefnisfótspor í flutningum (https://www.eimskip.com/carbon-calculator). Þrátt fyrir að helstu umhverfisáhrif Eimskips séu vegna reksturs tækja sem kortlögð voru í byrjun þá leggur félagið áherslu á að draga alla starfsmenn að borðinu og því hófst vinna við það árið 2021 að fá gögn frá starfsstöðvum erlendis. Frá og með 2021 bættust skrifstofur Eimskips í Færeyjum, Póllandi, Spáni og Bretlandi inn í umhverfisuppgjör félagsins í umfang 1 og 2 og nú á þessu ári hafa Noregur, Ítalía og Holland bæst í hópinn. Stefnt er að því að fá gögn frá fleiri skrifstofum þegar árið 2022 verði gert upp.

Losun í umfangi 1 á öðrum ársfjórðungi 2022 var 1% lægri en fyrir sama tímabil síðasta árs en félagið er með stóran hluta losunar sinnar í umfangi 1 og vinnur að áætlun er varðar orkuskipti til framtíðar.

Losun í umfangi 2 hefur aukist miðað við annan ársfjórðung 2021. Ástæða hækkunarinnar er sú að erlendar skrifstofur félagsins setja nú inn gögn frá sinni starfsemi. Hingað til hefur umfang 2 verið lágt enda CO2 losunarstuðull lægri á Íslandi vegna grænnar orku. Erlendis er aðgengi að grænni orku ekki eins auðveld og á Íslandi og er losunarstuðull rafmagns til að mynda mun hærri. Eimskip hefur uppi áætlanir að byggja upp nýja aðstöðu í Hollandi og Færeyjum og felur hluti af skipulagi verkefnanna að huga að betri orkunýtingu, t.d. með notkun sólarrafhlaða.

Umfang 3 hefur hækkað umtalsvert á milli tímabila, aðallega vegna aukningar á flugi starfsmanna vegna vinnu, en flug var í lágmarki á árunum 2020 og 2021 vegna Covid-19.

Eimskip vinnur að fjölbreyttum umhverfisverkefnum sem stuðla að því að draga úr umhverfisáhrifum félagsins. Félagið var eitt af fyrstu fyrirtækjum landsins sem setti skýr markmið um að draga úr losun koltvísýrings en félagið setti sér það meginmarkmið árið 2015 að draga úr losun koltvísýrings á hvert flutt tonn um 40% fyrir árið 2030.