Fara á efnissvæði

MANNAUÐSTEFNA EIMSKIPS

Markmið Eimskips er að skapa starfsfólki jöfn tækifæri í öruggu og heilbrigðu starfsumhverfi enda vita stjórnendur að árangur í rekstri félagsins byggist á þekkingu og metnaði starfsfólks. Þess vegna vinnur félagið að því að efla starfshæfni einstaklinga og hvetja þá til að nýta eigin áhuga og frumkvæði til vaxtar og persónulegra framfara. Lögð er sérstök áhersla á að skapa jákvæða menningu með sterkri liðsheild, tækifærum til þróunar, hvatningu til að sýna frumkvæði, opnum skoðanaskiptum og góðri miðlun upplýsinga. Með þessum áherslum er leitast við að skapa eftirsóknarverðan vinnustað sem laðar að sér hæft starfsfólk sem vex, dafnar og axlar ábyrgð.

MANNAUÐSSTEFNA EIMSKIPS SKIPTIST Í SEX HLUTA

 1. Mannauður
 2. Mannréttindi
 3. Jafnrétti
 4. Einelti og áreitni
 5. Heilsuefling
 6. Vinnuvernd og öryggi

Mannauður

Mannauður Eimskips, þekking hans og færni, er mikilvægasta auðlind félagsins. Hópurinn samanstendur af ólíkum einstaklingum sem sinna mismunandi störfum og búa að ólíkri reynslu og þekkingu. Með sameiginlegum gildum stillir hópurinn saman strengi, byggir öflugt félag og eftirsóknarverðan vinnustað með sterkri liðsheild og metnaði.

Stjórnun
Stjórnendur leitast við að laða fram það besta í starfsfólki, hvetja það og styðja með reglulegri endurgjöf og virku upplýsingaflæði. Þeir leggja sig fram um að byggja upp liðsheild sem sýnir áhuga, axlar ábyrgð og tekur virkan þátt í að byggja upp góðan vinnustað. Áhersla er lögð á góð samskipti milli starfsfólks enda er það mikilvægur þáttur til þess að viðhalda góðum starfsanda. Til að ná árangri þarf starfsfólk upplýsingar um hvernig það stendur sig í starfi. Endurgjöf innan Eimskips einkennist af hvatningu og hrósi fyrir góðan árangur, opinskárri og heiðarlegri umræðu og endurgjöf varðandi það sem betur má fara. Góð frammistaða er metin að verðleikum hjá Eimskip.

Starfsmannaval
Ólíkir einstaklingar með mismunandi reynslu og hæfileika eru lykillinn að velgengni Eimskips. Vandað starfsmannaval tryggir að Eimskip hefur rétt fólk á réttum stað. Metnaður er lagður í að taka vel á móti nýju samstarfsfólki og veita því góðar upplýsingar og starfsþjálfun.

Mikilvægt er að huga að fjölbreytni innan hópsins þegar staðið er frammi fyrir því að velja nýjan einstakling í teymið. Þetta á bæði við um innri og ytri ráðningar. Markmið Eimskips er að hæft starfsfólk veljist til starfa sem hafi metnað til að takast á við þau verkefni sem bíða úrlausnar. Hjá Eimskip skal starfsfólk njóta sömu kjara og fá greidd sömu laun fyrir jafn verðmæt störf, að teknu tilliti til reynslu og menntunar.

Samsetning framkvæmdastjórnar skal vera fjölbreytt með tilliti til hæfni, þekkingar, reynslu, menntunar og kyns. Horft er sérstaklega til þessara þátta við val á einstaklingum í framkvæmdastjórn. Markviss arftakaáætlun er unnin innan Eimskips með það að leiðarljósi að tryggja leiðtogaþróun innan félagsins, miðla áfram leiðtogahlutverkum, stuðla að fjölbreytileika í stjórnendastörfum og stöðugleika í rekstri félagsins.

Tilnefningarnefnd stjórnar gegnir því hlutverki að tryggja að stjórn félagsins í heild sé fjölbreytt hvað varðar hæfni, þekkingu, reynslu, menntun, kyn og óhæði. Nefndin starfar eftir starfsreglum tilnefningarnefndar sem birtar eru á vefsíðu félagins.

Mannréttindi

Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis eða stöðu að öðru leyti. Öll kyn skulu njóta jafns réttar í hvívetna. Eimskip er aðili að UN Global Compact sem er alþjóðaverkefni á vegum Sameinuðu þjóðanna. Með þátttöku skuldbindur Eimskip sig til þess að stefna og starfshættir félagsins séu í samræmi við tíu meginreglur Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi, vinnumarkað, umhverfismál og aðgerðir gegn spillingu.

Eimskip virðir mannréttindi. Markmið Eimskips er:

 • Að tryggja mannréttindi starfsfólks Eimskips
 • Að tryggja að Eimskip uppfylli kröfur laga og reglna í mannréttindamálum

Eimskip skuldbindur sig til að fara að öllum gildandi lögum og reglum um mannréttindi sem fjalla um félagafrelsi, nauðungar- og þrælkunarvinnu, barnavinnu og misrétti á vinnustöðum og hvetur hagsmunaaðila sína til að gera slíkt hið sama.

Félagafrelsi: Eimskip virðir rétt starfsfólks til aðildar að stéttarfélagi eða að standa utan stéttarfélags.

Nauðungar- og þrælkunarvinna: Eimskip hafnar og vinnur gegn hvers konar nauðungar- og þrælkunarvinnu.

Barnavinna: Eimskip fylgir alþjóðlegum lögum og reglum um lágmarksaldur einstaklinga sem ráðnir eru til starfa. Félagið getur ákveðið að sá aldur geti verið hærri vegna eðlis starfa eða vegna laga í viðkomandi landi.

Misrétti á vinnustöðum:

 • Eimskip hafnar hvers kyns misrétti sem varðar vinnu og starfsval
 • Eimskip hvetur allt starfsfólk til að tilkynna Mannauðs- og samskiptasviði ef grunur er um brot gegn mannréttindum innan félagsins
 • Félagið gerir þá kröfu að birgjar og undirverktakar virði mannréttindi og starfi í samræmi við siðareglur birgja

FJÖLBREYTILEIKI, JÖFNUÐUR OG INNGILDING

Stefna og áætlun Eimskips um fjölbreytileika, jöfnuð og inngildingu  byggir á gildum félagsins um árangur, samstarf og traust.  Hún miðar að því að skapa umhverfi án aðgreiningar þar sem fjölbreytileiki, jöfnuður og inngilding er höfð í fyrirrúmi. 

Áætlun Eimskips um fjölbreytileika, jöfnuð og inngildingu, fjallar um markmið og aðgerðir sem ætlað er að tryggja starfsfólki þau réttindi sem kveðið er á um í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Áætlunin miðar að því að tryggja sanngjarna meðferð og jafna stöðu alls starfsfólks, óháð kyni, kynþætti, þjóðerni, kynhneigð, fötlun eða öðrum þáttum. Eimskip leggur áherslu á að skapa umhverfi þar sem sérhver einstaklingur upplifir að hann sé metinn, virtur og hafi áhrif á vinnuumhverfi sitt. 

Launajafnrétti: Eimskip gætir fyllsta jafnréttis við ákvörðun launa og annarra starfskjara. Allt starfsfólk fær greidd jöfn laun og njóta sömu starfskjara fyrir jafnverðmæt störf, að teknu tilliti til reynslu og menntunar. Eimskip mismunar ekki starfsfólki í launum, hlunnindum eða kjörum eftir kyni, kynhneigð, kyntjáningu, trúarbrögðum, þjóðerni, fötlun, aldri, eða öðrum óviðkomandi þáttum. Það er stefna Eimskips að laun og önnur kjör séu samkeppnishæf við sambærileg störf á vinnumarkaði.  

Ráðningar: Eimskip miðar að því að gæta fyllsta jafnréttis við ráðningu í öll störf .. Störf skulu standa öllum opin til umsóknar og leitast skal við auka fjölbreytileika. Þá skal ávallt leitast við að jafna kynjahlutfall þar sem því verður við komið.

Starfsþróun: Eimskip leggur áherslu á að allt starfsfólk í sambærilegum störfum njóti sömu möguleika til starfsþróunar, símenntunar og endurmenntunar og hafi jafnan aðgang að námskeiðum sem haldin eru til að auka þekkingu og hæfni í starfi eða sem undirbúning fyrir önnur störf. Þá skal leitast við að höfða til alls starfsfólks í tilboðum og úrvali sem snúa að starfsþróun, símenntun og endurmenntun.

Framgangur í starfi: Við skipun í nefndir, vinnuhópa, við úthlutun verkefna eða þegar teknar eru ákvarðanir um framgang í starfi ræður fagleg þekking og reynsla mestu um val einstaklinga og stefnt er að jöfnum hlut kynja þar sem því verður við komið. Sérstök áhersla er lögð á að jafna stöðu kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum. 

Samræming vinnu og einkalífs: Eimskip skipuleggur vinnufyrirkomulag og gerir nauðsynlegar ráðstafanir til að gera öllu starfsfólki kleift að samræma starfsskyldur sínar, einkalíf og ábyrgð gagnvart fjölskyldu eins og kostur er. Þessar ráðstafanir byggjast á gagnkvæmum skilningi vinnuveitanda og starfsfólks á þörfum hvors annars og vilja beggja aðila til að sýna tillitssemi og ná fram sanngjarnri niðurstöðu. Lykilhugtak í samræmingu vinnu og einkalífs er „sveigjanleiki”, en nota ber það með hagsmuni beggja aðila að leiðarljósi. Leitast er við að koma til móts við óskir starfsfólks um tímabundið hlutastarf vegna endurkomu úr barnseignar- eða veikindaleyfi og einnig sem leið til að draga úr vinnu í aðdraganda starfsloka og lífeyristöku. Eimskip leitast við að mæta þörfum fjölskyldufólks og hvetur öll kyn til að nýta sér fæðingarorlof. Eins eru foreldrar hvattir til að skipta með sér heimaveru vegna veikinda barna sinna.  Þá leitast Eimskip við að halda yfirvinnu starfsfólks innan eðlilegra marka.

Einelti og áreitni

Eimskip líður ekki einelti, kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni, fordóma né mismunun af nokkru tagi. Komi upp aðstæður innan vinnustaðarins sem lýsa má með neðangreindum hætti skal haft samband við starfsfólk Mannauðs- og samskiptasviðs sem virkjar viðeigandi viðbragðsáætlun. Einnig má leita aðstoðar hjá trúnaðarmönnum stéttarfélaganna. Unnið er með sérhvert tilfelli og hlutaðeigandi aðilar studdir til að leysa málin. Þyki ástæða til eru utanaðkomandi sérfræðingar fengnir til aðstoðar.

Skilgreiningar: Þegar fjallað er um einelti, kynferðislega eða kynbundna áreitni eða ofbeldi þá er stuðst við eftirfarandi skilgreiningar. Þessar skilgreiningar byggja á gildandi lögum og reglugerðum.

Einelti: Einelti er síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.

Kynbundið ofbeldi: Ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.

Kynbundin áreitni: Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.

Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn eða líkamleg.

Hegðun sem veldur vanlíðan: Hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa, ógna eða valda viðkomandi ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.

Ofbeldi: Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáningar þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt.

Þolandi: Sá sem telur sig verða fyrir einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi eða ótilhlýðilegri háttsemi.

Gerandi: Sá sem kvörtun um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni, ofbeldi eða ótilhlýðilega háttsemi beinist að.

Heilsuefling

Eimskip stuðlar að almennri vellíðan og góðri andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu starfsfólks. Aukin vellíðan leiðir af sér aukin lífsgæði og ánægðara starfsfólk.

Eimskip leggur áherslu á að auka þekkingu starfsfólks um mikilvægi heilsu og öryggis og leggur þar með sitt af mörkum til forvarna gegn atvinnutengdum álagseinkennum, slysum, fjarveru og ótímabærum starfslokum vegna veikinda.

Hjá Eimskip er óheimilt að neyta áfengis eða annarra vímuefna á vinnustað eða á vinnutíma.

Vinnureglur varðandi tóbaksneyslu og bann við neyslu áfengis og vímuefna á vinnustað eru virkar og til þess gerðar að stuðla að góðri heilsu og öryggi starfsmanna, annarra hagsmunaaðila og eigna félagsins.

Vinnuvernd og öryggi

Eimskip er umhugað um heilsu og öryggi starfsfólks. Félagið býður upp á örugga og heilsusamlega vinnuaðstöðu sem frekast er kostur og leggur áherslu á að starfsfólk verndi sjálft sig, samstarfsfólk, utanaðkomandi einstaklinga, vörur, búnað og umhverfi fyrir hvers konar skaða.

Stefna Eimskips varðandi slys á fólki er núllslysastefna, þ.e. að engin slys á fólki verði í starfsemi félagsins eða af völdum hennar. Starfsfólk félagsins vinnur að því að útiloka hættulegar aðstæður í vinnuumhverfinu og hverskyns áhættuhegðun.

Rekstur Eimskips er í samræmi við landslög, alþjóðareglur og samþykktir og aðra viðurkennda staðla og viðmiðun hvað varðar vinnuvernd og öryggismál. Markmið Eimskips með forvarnastarfi er að lágmarka allan skaða hvort sem er á einstaklingum, vörum eða eignum. Eimskip leggur áherslu á góða þekkingu og áhættuvitund og vinnur markvisst að því að efla og styrkja þá þætti.

Eimskip starfrækir viðbúnaðarteymi (óhappanefnd) sem kemur saman og stýrir aðgerðum ef alvarleg áföll verða í eða tengd starfsemi félagsins.

Endurskoðun

Mannauðsstefna Eimskips er samþykkt af framkvæmdastjórn og er Mannauðs- og samskiptasvið eigandi hennar. Stefnuna skal endurskoða á tveggja ára fresti og ber framkvæmdarstjóri mannauðs- og samskiptasviðs ábyrgð á að endurskoðun eigi sér stað. Stefnan er birt á vefsíðu Eimskips og er aðgengileg starfsfólki á innri vef Eimskips.


Samþykkt í framkvæmdastjórn Eimskipafélag Íslands hf.
Reykjavík 30. ágúst 2022

JAFNLAUNASTEFNA EIMSKIPS

Jafnlaunastefna Eimskips nær til alls starfsfólks Eimskips á Íslandi. Mannauðs- & samskiptasvið Eimskips ber ábyrgð á jafnlaunastefnunni.

Eimskip gætir fyllsta jafnréttis við ákvörðun launa og annarra starfskjara. Allir starfsmenn fá greidd jöfn laun og njóta sömu starfskjara fyrir jafnverðmæt störf. Það er stefna Eimskips að laun og önnur kjör séu samkeppnishæf við sambærileg störf á markaði.