Við flytjum aukið öryggi - 70 þúsund hjálmar frá 2004

10. maí 2021 | Fréttir
Við flytjum aukið öryggi - 70 þúsund hjálmar frá 2004

Það er ljúfur vorboði ár hvert þegar börnum á hjólum fer fjölgandi á götum úti. Við sjáum unga krakka stíga sín fyrstu skref í umferðinni og þá er mikilvægt að öryggismálin séu í góðu lagi. 

Öryggis- og forvarnarmál eru lykilatriði í allri starfsemi Eimskips. Bílstjórarnir okkar keyra um landið þvert og endilangt með verðmætan varning, oft við krefjandi aðstæður. Sama gildir um skipverjana okkar sem sigla í alls konar veðrum til að tryggja að vörurnar skili sér á réttum tíma. Þegar verið er að flytja dýrmætan varning, sama hvort um er að ræða sjávarafurðir, búslóðir, matvæli eða annað þá skiptir miklu máli að hafa hæft og vel þjálfað starfsfólk í hverju starfi, bæði til að tryggja að vörurnar komist heilar á leiðarenda en ekki síst til að tryggja öryggi starfsfólks. Þess vegna leggjum við mikið upp úr þjálfun og fyrirbyggjandi aðgerðum til að lágmarka áhættuna í starfsemi okkar.

Áhersla okkar á öryggis- og forvarnarmál endurspeglast einnig í styrktarstefnu félagsins, þar sem við leggjum áherslu á að koma góðu til leiðar í öryggis og forvarnarmálum. Frá árinu 2004 hefur Eimskip, í góðu samstarfi við Kiwanis, fært nemendum í fyrsta bekk í grunnskólum landsins reiðhjólahjálma til að stuðla að öryggi þeirra í umferðinni. Verkefnið hefur teygt anga sína út fyrir landssteinana og auk barna hér á Íslandi hafa börn á Grænlandi einnig fengið hjálma að gjöf. Alls hafa um 70 þúsund börn fengið hjálm að gjöf en árgangurinn sem fékk fyrstu hjálmana er nú á sínu sautjánda aldursári. Það yljar okkur um  hjartarætur í hvert sinn sem við fáum símtal frá þakklátum foreldrum þar sem hjálmarnir hafa bjargað en það segir okkur einnig hversu mikilvægt þetta verkefni er.

Það er þó ekki nóg að hafa réttu tólin, þau þurfa að vera rétt stillt. Við hvetjum alla foreldra til að kynna sér leiðbeiningar á heimasíðu félagsins, hér, en þar má lesa allt um það hvernig hjálmarnir eru rétt stilltir svo börnin hjóli örugg inn í sumarið.

Við komum góðu til leiðar.