Uppgjör annars ársfjórðungs 2020

27. ágúst 2020 | Fréttir
Uppgjör annars ársfjórðungs 2020

Helstu atriði í afkomu annars ársfjórðungs

 • Tekjur námu 160,6 milljónum evra og lækkuðu um 6,9 milljónir evra eða 4,1% frá sama ársfjórðungi 2019.
  • Lækkun tekna má fyrst og fremst rekja til 5,3% samdráttar í magni í siglingakerfinu og 4,0 milljóna evra lægri tekna í starfsemi á Íslandi vegna veikingar krónunnar.
  • Magn í flutningsmiðlun minnkaði um 5,3% en hins vegar jukust tekjur um 3,5% vegna hærra hlutfalls frystiflutninga.
 • Kostnaður nam 144,6 milljónum evra sem er lækkun um 7,1 milljón evra milli tímabila sem skýrist að mestu af hagræðingaraðgerðum sem eru að skila sér.
  • Launakostnaður lækkaði um 4,0 milljónir evra eða 11,9%, þar af 2,0 milljónir evra vegna veikingar krónunnar. Uppsagnarkostnaður að fjárhæð 1,0 milljón evra meðtalinn í launum.  
  • Kostnaðarlækkun í siglingakerfi, stjórnunarkostnaði og olíuverði höfðu áhrif til lækkunar á kostnaði.
 • Þegar tekið hefur verið tillit til 1,0 milljónar uppsagnarkostnaðar nam EBITDA 17,0 milljónum evra á öðrum ársfjórðungi 2020 samanborið við 15,8 milljónir evra  á sama ársfjórðungi síðasta árs sem er hækkun um 7,6%.
 • Hagnaður fjórðungsins nam 2,5 milljónum evra samanborið við 2,8 milljónir evra hagnað fyrir sama ársfjórðung síðasta árs.
 • Handbært fé frá rekstri jókst um 2,1 milljón evra og nam 22,0 milljónum evra í lok tímabilsins samanborið við 19,9 milljónir evra fyrir sama tímabil síðasta árs.
  • Lausafjárstaða félagsins er góð og innborganir að fjárhæð 14 milljónir evra voru greiddar inná veltufjármögnunarlínu á fjórðungnum.
  • Ný 10 milljóna evra veltufjármögnunarlína var tryggð á fjórðungnum til að styrkja enn frekar lausafjárstöðu.
 • Neikvæðra áhrifa af COVID-19 gætti einna helst í ferðaþjónustutengdu dótturfélögunum Sæferðum og Gáru.
 • Eimskip fékk nýja skip sitt Dettifoss afhent og samstarfið við Royal Arctic Line hófst formlega.

Helstu atriði í afkomu fyrstu sex mánuði ársins 2020

 • Tekjur námu 322,3 milljónum evra og lækkuðu um 9,2 milljónir evra eða 2,8 % samanborið við sama ársfjórðung 2019.
 • Kostnaður nam 296,9 milljónum evra sem er lækkun um 5,5 milljónir evra milli tímabila. Launakostnaður lækkaði um 7,0 milljónir evra eða 10,5%, þar af um 3 milljónir evra vegna veikingar krónunnar. Uppsagnarkostnaður að fjárhæð 1,0 milljón evra er meðtalinn í launum. 
 • EBITDA nam 25,3 milljónum evra samanborið við  29,1 milljón evra fyrir sama tímabil síðasta árs, sem er lækkun um 12,8%.
 • Tap tímabilsins nam 2,5 milljónum evra samanborið við hagnað að fjárhæð 0,3 milljónum evra fyrir sama tímabil 2019.
 • Fjárfestingar tímabilsins námu 26,1 milljón evra samanborið við 21,7 milljónir evra fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2019.
  • Fjárfestingar í nýjum gámaskipum námu 18,4 milljónum evra.
  • Þriðjungi af áætluðum viðhaldsfjárfestingum ársins hefur verið frestað vegna óvissu tengt COVID-19.
 • Handbært fé frá rekstri nam 23,2 milljónum evra samanborið við 33,0 milljónir evra fyrir sama tímabil síðasta árs.
 • Eigið fé nam 222,4 milljónum evra í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfallið nam 41,1% en til samanburðar var eiginfjárhlutfallið 44,0% í árslok 2019.
 • Skuldsetningarhlutfall var 3,54 í lok fyrsta ársfjórðungs, samanborið við 3,03 í lok árs 2019. Það er yfir langtíma markmiðum um skuldsetningarhlutfall sem er 2-3x nettó vaxtaberandi skuldir á móti EBITDA.
 • Mikil vinna hefur verið lögð í að tryggja öryggi og heilsu starfsmanna, halda flutningakeðjunni gangandi og að tryggja góða þjónustu við viðskiptavini vegna áhrifa COVID-19.

VILHELM MÁR ÞORSTEINSSON, FORSTJÓRI

“Ég er nokkuð ánægður með niðurstöður annars ársfjórðungs sem eru ofar væntingum sem stjórnendur höfðu í upphafi fjórðungsins, sérstaklega ef litið er til stöðunnar vegna COVID-19. Bættan árangur má meðal annars sjá í aðlagaðri EBITDU fjórðungsins sem jókst um 7,6% milli ára. Ég er mjög stoltur og þakklátur fyrir hversu mikið okkar frábæra starfsfólk hefur lagt sig fram á þessum krefjandi tímum. Þeirra framlag hefur verið lykillinn að því að tryggja góða þjónustu til viðskiptavina og því að halda flutningakeðjunni gangandi.

Við erum farin að sjá jákvæð áhrif hagræðingaraðgerða síðustu sex til tólf mánaða þar sem við höfum t.d. fækkað stöðugildum um 10% frá árslokum 2019, aðlagað gáma- og frystiflutningakerfin okkar og fækkað skrifstofum. Það hefur reynst mikilvægur þáttur til að vega á móti neikvæðri þróun í flutningsmagni og áhrifum COVID-19 og við erum ákveðin í að tryggja að þessar rekstrarumbætur haldist til framtíðar.

Alþjóðasviðið okkar átti sterkan fjórðung, sérstaklega í frystiflutningsmiðlun sem við leggjum sérstaka áherslu á og skilar hærri framlegð en þurrvara. Innanlands starfsemin okkar átti einnig sterkan fjórðung þar sem hagstæð samsetning á vörum í akstri og agaður rekstur skiluðu sínu. Arðsemi af gámasiglingakerfinu okkar þarf hins vegar að bæta og við munum halda áfram að leggja mikla áherslu á það verkefni á komandi mánuðum. Að auki má nefna að meðan áhrifa COVID-19 gætir á ferðaþjónustutengda starfsemi mun það hafa áhrif á dótturfélög okkar Sæferðir og Gáru.

Það var frábær áfangi þegar Eimskip fékk nýja gámaskipið Dettifoss í þjónustu sína nú í júlí og við hófum formlega samsiglingar með Royal Arctic Line en þetta er í fyrsta sinn sem Eimskip hefur slíkar samsiglingar með þessum hætti. Mig langar sérstaklega að þakka áhöfninni á Dettifossi og starfsmönnum á Rekstrarsviði Eimskips fyrir að ferðast til Kína á krefjandi tímum vegna COVID-19 og tryggja örugga heimkomu nýja skipsins. Grænland fær nú aukinn aðgang að alþjóða mörkuðum í gegnum siglingakerfi Eimskips. Við sjáum aukinn áhuga frá íslenskum fyrirtækjum á útflutningi til Grænlands og eigum við von á að viðskipti milli landanna tveggja aukist. Við áætlum að fá seinna skipið okkar, Brúarfoss, afhent á fyrri hluta fjórða ársfjórðungs og í þjónustu síðar í þeim fjórðungi.

Í júní sameinuðum við höfuðstöðvar félagsins á einn stað og tókum um leið í notkun nútímalegt og dýnamískt verkefnamiðað vinnuumhverfi. Á sama tíma fækkuðum við skrifstofufermetrum um 50% eða 3200m2. Breytingunum hefur verið vel tekið af starfsmönnum og ég er ánægður að sjá hversu jákvæð áhrif þær hafa nú þegar haft á fyrirtækjamenninguna okkar.“

RAFRÆNN KYNNINGARFUNDUR 28 ÁGÚST 2020

Stjórn Eimskipafélags Íslands hf. samþykkti árshlutareikning samstæðu Eimskips fyrir annan ársfjórðung ársins 2020 á stjórnarfundi þann 27. ágúst 2020. Kynningarfundur fyrir fjárfesta og markaðsaðila verður haldinn föstudaginn 28. ágúst kl. 8:30. Fundurinn verður eingöngu rafrænn og verður honum streymt beint á fjárfestasíðu Eimskips www.eimskip.com/investors. Þar mun Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri kynna uppgjör félagsins fyrir fyrsta ársfjórðung. Uppgjörsgögn og upptöku af fundinum verður einnig hægt að nálgast á fjárfestasíðunni.

FREKARI UPPLÝSINGAR

 • Egill Örn Petersen, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, sími: 525 7202
 • Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og samskiptasviðs, sími: 825 3399, netfang: investors@eimskip.com

TIL ATHUGUNAR FYRIR FJÁRFESTA

Eimskip vekur athygli á því að staðhæfingar sem finna má í þessari afkomutilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna við birtingu tilkynningarinnar. Eðli málsins samkvæmt fela slíkar staðhæfingar í sér óvissu. Athygli fjárfesta er vakin á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi félagsins og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í tilkynningunni. Þessi tilkynning verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar. Staðhæfingar sem finna má í þessari afkomutilkynningu gilda eingöngu á því tímamarki þegar tilkynningin er fyrst birt og takmarkast gildi þeirra við sem segir í fyrirvara þessum.

 

Viðhengi